Ker hf., Olíuverzlun Íslands hf. og Skeljungur hf. skulu greiða Vestmannaeyjabæ rúmar 14 milljónir króna í skaðabætur vegna ólögmæts samráðs á eldsneyti.
Það var Hæstiréttur Íslands sem kvað upp dóminn. Áður hafði Héraðsdómur Reykjavíkur komist að þeirri niðurstöðu að olíufélögin skyldu greiða bænum 10 milljónir króna í skaðabætur vegna eldsneytis sem bærinn verslaði af félögunum.
Því hækkaði Hæstiréttur bæturnar um fjórar milljónir rúmar.
Sá hluti kröfunnar er varðar viðskipti á árinu 1997 og fram í febrúar 1998 reyndist hinsvegar fyrndur.
Þá fór Dala-Rafn ehf. einnig í skaðabótamál við sömu aðila. Það er útgerðafyrirtæki í Vestmannaeyjum.
Fyrirtækið krafðist átta milljónir í miskabætur vegna samráðsins en Hæstiréttur sýknaði olíufélögin af kröfunni þar sem ekki þótti sannað að brotin hefðu beinst sérstaklega að Dala-Rafni.