Lífið

Deilt um íslenska tungu

Páll Magnússon segir það vel koma til greina að breyta reglum um á hvaða tungu lögin í Söngvakeppni Sjónvarpsins séu sungin. Jakobi Frímann líst ekkert á slíkar breytingar.
Páll Magnússon segir það vel koma til greina að breyta reglum um á hvaða tungu lögin í Söngvakeppni Sjónvarpsins séu sungin. Jakobi Frímann líst ekkert á slíkar breytingar.

„Það hefur engin ákvörðun verið tekin en ég reikna með að það verði gert eftir helgi,” segir Páll Magnússon, útvarpsstjóri. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins stendur til að endurskoða reglur um Söngvakeppni Sjónvarpsins en eins og þær eru í dag er höfundum frjálst að flytja lagið á hvaða tungumáli sem er. Eins og Fréttablaðið greindi frá í þessari viku þá er aðeins eitt lag eftir í núverandi keppni sem sungið er á íslensku en það er lag Hvanndalsbræðra, Gleði og Glens. Páll vildi ekkert gefa upp hvernig vindar blæsu í þessu máli en sagði vissulega skrýtið að standa frammi fyrir þeirri staðreynd að frumsamin íslensk lög fyrir íslenska keppni skyldu nánast öll vera sungin á ensku.

Félag tónskálda og textahöfunda hefur lengi verið þeirrar skoðunar að mönnum ætti að vera frjálst að syngja á hvaða tungumáli sem er. Jakob Frímann Magnússon, formaður félagsins, segir að sér þætti það undarlegt ef þessar breytingar yrðu að veruleika. „Annað hvort er þetta íslensk dagskrárgerð fyrir íslenska áhorfendur sem á að fara fram á íslensku eins og forsvarsmenn Sjónvarpsins hafa stundum haldið fram eða þetta er keppni um hvaða lag þykir sigurstranglegast í alþjóðlegri keppni eins og við í FTT höfum skilið þetta. Það er nú stóra spurningin,” segir Jakob en tekur skýrt fram að hann sé mikill talsmaður þess að sungið sé á íslensku. Slíkt eigi bara ekki við um svona keppni. - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.