Innlent

Endurheimtu verkfallsréttinn

Vilhjálmur birgisson
Vilhjálmur birgisson
Starfsfólk Norðuráls hefur endurheimt rétt til að fella niður vinnu vegna kjaradeilna og samið um allt að 11,2 prósenta launahækkun, sem meðal annars kemur fram í eingreiðslu upp á 150.000 krónur.

Þetta er niðurstaða viðræðna sem hófust í lok október og enduðu með tæplega sextán tíma samningalotu í byrjun vikunnar. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, er sáttur við árangurinn. „Þetta var bara barátta og mikið tekist á. Laun vaktavinnufólks hækka til dæmis um allt að tæpar 34.000 krónur," segir hann.

Árið 1998 var samið um að starfsfólkið mætti ekki leggja niður vinnu og Vilhjálmur segir dýrmætt að hafa fengið þennan rétt að nýju. Nú njóti starfsmenn Norðuráls sömu réttinda og aðrir í stóriðju.

Þótt samið hafi verið um talsverðar launahækkanir að þessu sinni, verða launaliðir lausir um áramót.

Í staðinn fyrir þetta fengu Norðurálsmenn í gegn að samningurinn skyldi gilda til ársloka 2014; friðarskylda ríkir þangað til. En launaliðirnir eru lausir strax um áramót og Vilhjálmur er farinn að setja sig í stellingarnar fyrir viðræður í desember. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×