Íslenski boltinn

Willum: Andinn og hugarfarið til staðar

Elvar Geir Magnússon skrifar
„Þetta var fjörugur leikur og sóknarleikurinn í hávegum hafður," sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflavíkur, eftir að hans lið tapaði 5-3 í Kaplakrikanum.

„Ég held nú að bæði lið hafi ætlað að verjast skipulega en það eru öflugir sóknarmenn í báðum liðum en við gerðum fullmikið af mistökum sem kostaði okkur. Það er dýrt gegn liði eins og FH sem er fljótt að refsa þér."

„Í heild sinni er ég sáttur við framlag liðsins. Við erum að spila á heimavelli FH-inga sem eru í titilbaráttu. Ég var sannfærður um að ef okkur tækist að jafna 3-3 myndi leikurinn vinna með okkur því pressan var á þeim að vinna leikinn. Því miður náðum við ekki að fylgja því eftir heldur sýndu þeir að það er engin tilviljun að þeir eru í titilbaráttu ár eftir ár."

Hvernig gengur að mótivera liðið þegar það hefur að engu að keppa á lokasprettinum? „Mér finnst það hafa gengið ágætlega. Keflavíkurliðið er félagslega sterk eining og með reynda stráka. Það sést alveg á okkar leik að undanförnu að andinn og hugarfarið er til staðar og við gefið allt í þetta," sagði Willum.

Síðasti leikur Keflavíkur verður gegn ÍBV á Keflavíkurvelli en Eyjamenn eru í harðri baráttu um Íslandsmeistaratitilinn. „Ég á ekki von á nokkru öðru en að það verði ekkert stórmál að hvetja liðið í þann leik enda erum við með afreksleikmenn á þessu getastigi. Auðvitað er erfitt fyrir keppnismenn þegar innri hvatningu vantar, þegar menn ætla sér mikið en markmiðið þitt fjarar út. Það leitar á menn og það er erfiðara að gíra sig upp í verkefnið en við förum yfir það og gefum allt okkar í lokaleikinn," sagði Willum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×