Fótbolti

Torres byrjaður að æfa aftur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fernando Torres með Xabi Alonso.
Fernando Torres með Xabi Alonso. Nordic Photos / AFP

Fernando Torres æfði í dag í fyrsta sinn síðan hann gekkst undir aðgerð á hné í síðasta mánuði.

Hann æfði í dag með spænska landsliðinu sem undirbýr sig nú fyrir HM í Suður-Afríku sem hefst í næsta mánuði.

Torres fór einnig í aðgerð á hné í janúar síðastliðnum en tókst engu að síður að skora átján mörk í 22 deildarleikjum á nýliðnu tímabili. Hann hefur skorað 23 mörk í 71 landsleik með Spáni og varð Evrópumeistari með liðinu fyrir tveimur árum.

„Það er frábært að Fernando hafi æft með okkur," sagði Gerard Pique, landsliðsfélagi hans. „Hann er mikilvægur leikmaður í okkar liði."

„Hann sagði að hann yrði klár í slaginn fyrir fyrsta leik okkar sem eru góðar fréttir," sagði annar leikmaður, Juan Mata.

Allir 23 leikmenn í HM-hópi Spánar æfðu í dag en liðið heldur til Austurríkis á morgun þar sem liðið mun æfa næst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×