Erlent

70 ár frá því litlu skipin björguðu Bretlandi

Óli Tynes skrifar

Í maí árið 1940 hafði þýski herinn hrakið á undan sér um 400 þúsund breska hermenn í gegnum Belgíu og Frakkland.

Bresku hermennirnir voru ungir og óreyndir, lítt þjálfaðir og búnir úreltum hergögnum. Þeir máttu sín lítils gegn leiftursókn þýskra skriðdrekasveita og flughersins.

Í lok mánaðarins voru Bretarnir voru komnir í herkví í litla strandbænum Dunkirk og virtust allar bjargir bannaðar.

Þegar þetta gerðist hafði Winston Churchill verið forsætisráðherra í þrjár vikur. Hann hratt af stað því sem kallað var aðgerð Dýnamór.

Hann sendi auðvitað herskip til Dunkirk en lét einnig lét boð út ganga til þjóðarinnar um að taka allt sem gæti flotið og sigla því yfir til Dunkirk til þess að bjarga hernum.

Vonast var til að með þessu væri hægt að bjarga kannski tíu prósentum hermannanna eða 40 til 45 þúsund af yfir 400 þúsund.

En breska þjóðin svaraði kallinu og óteljandi smábátar létu úr höfn. Sumir svo litlir að þeir gátu aðeins tekið 5-6 farþega.

En þeir voru yfirfylltir af hermönnum sem siglt var með yfir sundið til Bretlands. Svo sneru bátarnir aftur til Dunkirk til að sækja fleiri.

Björgunaraðgerðin stóð yfir til fimmta júní undir látlausum árásum þýska hersins og flughersins.

Óteljandi bátum var sökkt og tugþúsundir manna létu lífið. EN það tókst að bjarga um 338 þúsund hermönnum af ströndinni.

Það er nokkuð samdóma álit sagnfræðinga að ef þetta hefði ekki tekist hefði Bretland neyðst til að gefast upp og leita friðarsamninga. Þýskaland hefði unnið stríðið.

 

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×