Innlent

Reikna út kostnað við aðgerðir til handa skuldugum heimilum

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir.
Sérfræðingar á vegum stjórnvalda munu um helgina reikna út hvað aðgerðir til handa skuldugum heimilum muni kosta ríkissjóð og aðra. Forsætisráðherra vonar að fyrstu skrefin liggi fyrir á næstu dögum en segir að nokkar vikur geti liðið áður en endanleg niðurstaða náist.

Fimm ráðherrar undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra funduðu sín á milli um aðgerðir vegna skuldavanda heimillanna í gær og áttu síðan fund með fulltrúum stjórnarandstöðunnar.

Undanfarnar tvær vikur hafa stjórnvöld átt fundi með Hagsmunasamtökum heimilanna, fulltrúm banka og lífeyrissjóða og fleirum. Forsætisráðherra segir mikilvægt að allir aðilar komi að málinu til að finna hvar geti myndast sem víðtækust samstaða.

„Ég held að þessi vika sýni okkur það er töluvert mikil andstaða, meiri en ég átti von, við það að fara almenna niðurfærsluleið," segir Jóhanna.

Hins vegar liggi nú á borði stjórnvalda átta eða níu tillögur um ýmsar niðurfærslur fyrir ákveðna hópa. „Sem beinist að því að skoða sérstaklega eignir sem eru yfirveðsettar sem eru þá hjá hópum sem hafa verið að kaupa fyrir 3-4 árum síðan og er kannski aldurhópurinn 25-40 ára sem menn vilja töluvert horfa á," segir Jóhanna.

Ekki má þrengja að velferðarkerfinu

Vilji sé til þess að fara í viðbótaraðgerðir fyrir skuldugustu heimilin, sem allir aðilar tækju þátt í að framkvæma. Síðan sé mikilvægt að ryðja úr vegi hindrunum varðandi þau úrræði sem þegar séu fyrir hendi. Viðbótaraðgerðir megi ekki þrengja enn frekar að velferðarkerfinu.

Jóhanna vonist til að stjórn- og stjórnarandstaða geti staðið saman að frumvörpum sem kunna þurfi að leggja fram vegna aðgerðanna. „Öll mál sem snerta skuldavanda heimilanna og við erum að fjalla um í ríkisstjórninni fara nú ekki bara til stjórnarflokkanna heldur einnig til stjórnarandstöðuflokkanna þannig að samvinnan er mjög mikil í þessu máli."

„Það er tækifæri núna"

Framsóknarmenn lögðu fram sínar hugmyndir um aðgerðir á fundi með ráðherrunum í gær en þar er lögð áhersla á almenna niðurfærslu skulda. Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður Framsóknarflokksins sagði eftir fundinn, að það væri sorglegt að bankar, lífeyrissjóðir og aðrir sem hefðu hagnast á verðbólgunni, vildu ekki koma til móts við skuldara með almennri niðurfærslu skulda.

„Það er hægt að semja og tala um alla hluti. Það er tækifæri núna og það er í raun mjög sorglegt ef ekki verður hægt að bæta aðeins ástandið frá því sem áður, en því miður sé ég ekki að það verði," segir Gunnar Bragi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×