Íslenski boltinn

Ólafur: Góð tilfinning að spila áfram í efstu deild

Stefán Árni Pálsson skrifar

,,Það er góð tilfinning  að fá að spila í efstu deild að ári,“ sagði Ólafur Örn Bjarnason ,þjálfari Grindvíkinga, eftir leikinn í kvöld. Grindavík og KR gerðu 3-3 jafntefli í 21.umferð Pepsi-deildar karla í kvöld en leikið var í Grindavík.

,,Ég er mjög ánægður með hvað menn náðu að hrista af sér fyrstu tuttugu mínútur leiksins og komast aftur inn í leikinn. Við hefðum alveg getað komist yfir í síðari hálfleiknum en í staðinn skora KR-ingar frábært skallamark í lokin. Ég er virkilega sáttur með að hafa náð að jafna leikinn í og ná í þetta stig sem við þurftum,“ sagði Ólafur.

,,Þegar við erum komnir tveimur mörkum undir þá er eins og við áttum okkur á því að fara byrja leikinn af alvöru. Þá byrjum við að spila boltanum á milli okkar og gera það sem við lögðum upp með,“ sagði Ólafur.

Grindvíkingar fengu frekar vafasama vítaspyrnu í lokin sem varð til þess að þeir náðu að jafna leikinn.

,,Ég sá ekki atvikið þegar hann dæmir víti og get í raun ekkert tjáð mig um það. Dómarinn dæmir bara leikinn og þannig er það. Við höfum oft lent í vafasömum atvikum áður og það mun alltaf gerast,“ sagði Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×