Fótbolti

Boateng: Þetta var óviljandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tæklingin umrædda.
Tæklingin umrædda. Nordic Photos / Getty Images

Kevin-Prince Boateng hefur beðist afsökunar á tæklingunni á Michael Ballack í bikarúrslitaleik Chelsea og Portsmouth um helgina.

Ballack meiddist á ökkla og missir af þeim sökum af HM í Suður-Afríku í sumar.

„Þetta var ekki viljandi. Ég var of seinn í tæklinguna og fór í hann," sagði Boateng í samtali við þýska fjölmiðla. „Þetta lítur frekar heimskulega út."

Boateng er fæddur og uppalinn í Þýskalandi og spilaði með yngri landsliðum Þjóðverja. Faðir hans er frá Gana og fékk hann það nýlega í gegn að fá að spila með landsliði Gana á HM í sumar.

Gana og Þýskaland eru einmitt saman í riðli og mætast í fyrstu umferð riðlakeppninnar í Suður-Afríku.

En til að bæta gráu á svart þá er bróðir Kevin-Prince, Jerome, í æfingahópi þýska landsliðsins.

Mikil reiði ríkir meðal stuðningsmanna þýska landsliðsins sem hafa látið reiði sína í ljós á internetinu.

Þess má svo einnig geta að þeir Boateng-bræður eru fjarskyldir ættingjar Helmut Rahn sem skoraði sigurmark Þjóðverja í úrslitaleik HM árið 1954 gegn Ungverjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×