Íslenski boltinn

Fimm stuðningsmönnum ÍBV bannað að fara með í hópferð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Forráðamenn knattspyrnudeildar ÍBV hafa bannað fimm stuðningsmönnum liðsins að fara með í hópferð á leik liðsins gegn Keflavík í lokaumferð Pepsi-deildar karla um helgina. Þetta kom fram í hádegisfréttum Bylgjunnar.

ÍBV var í vikunni sektað af Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ um 25 þúsund krónur vegna hegðunar stuðningsmanna liðsins á leik þess gegn Stjörnunni um síðustu helgi.

Óskar Örn Ólafsson, formaður deildarinnar, segir að fundað verði í dag þar sem sektin verði rædd. Enn liggur ekki fyrir hvort að félagið gangist við sektinni.

Hann sagði hins vegar við fréttadeild að það séu fimm stuðningsmenn liðsins sem urðu uppvísir að fyrrgreindri hegðun og að þeir séu ekki velkomnir á næstu leiki liðsins.

ÍBV getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn um næstu helgi ef liðið vinnur Keflavík og Breiðablik vinnur ekki sinn leik í lokaumferðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×