Innlent

Varaformaðurinn rekinn af Mogganum

Elvu Björk Sverrisdóttur, varaformanni Blaðamannafélagins, var sagt upp störfum á Morgunblaðinu fyrir áramót. Hún segir að ástæðurnar fyrir uppsögninni séu afar ótrúverðugar.
Elvu Björk Sverrisdóttur, varaformanni Blaðamannafélagins, var sagt upp störfum á Morgunblaðinu fyrir áramót. Hún segir að ástæðurnar fyrir uppsögninni séu afar ótrúverðugar.
„Mér finnst ástæðurnar sem eru nefndar fyrir uppsögninni vera mjög ótrúverðugar þar sem vísað er í skipulagsbreytingar og hagræðingaraðgerðir frá því í september. Síðan þá hefur ýmislegt breyst og fjölmargir blaðamenn látið af störfum og nýir komið inn. Mér finnst því hæpið að vísa í nokkurra mánaða gamlar hagræðingaraðgerðir nú um áramótin," segir Elva Björk Sverrisdóttir, varaformaður Blaðamannafélagins, en henni var sagt upp störfum hjá Morgunblaðinu í síðustu viku. Hún hefur verið í fæðingarorlofi og átti að hefja störf að nýju síðastliðinn mánudag.

Í hagræðingaraðgerðum Morgunblaðsins í haust misstu fjölmargir blaðamenn atvinnuna, þar á meðal formaður Blaðamannafélags Íslands, Þóra Kristín Ásgeirsdóttir.

Aðspurð hvað hún haldi að verði um Morgunblaðið segir Elva Björk ljóst að blaðið glími við mikinn rekstrarvanda. Erfitt sé að spá fyrir um framtíðina. Aftur á móti sé ljóst að dregið hafi úr trúverðugleika blaðsins að undanförnu.

„Mér þykir einsýnt að trúverðugleiki Morgunblaðsins, þrátt fyrir það góða fólk sem þar starfar og sinnir sínu starfi að heilindum, hafi beðið hnekki með ráðningu nýs ritstjóra."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×