Innlent

Geta byrjað á álveri á Bakka árið 2013

Umhverfismat fyrir virkjanir að Þeistareykjum og álver á Bakka verður auglýst síðar í mánuðinum. Eftir á að bora tvær rannsóknarholur á svæðinu.
mynd/völundur jónsson
Umhverfismat fyrir virkjanir að Þeistareykjum og álver á Bakka verður auglýst síðar í mánuðinum. Eftir á að bora tvær rannsóknarholur á svæðinu. mynd/völundur jónsson
Framkvæmdir geta hafist við álver á Bakka árið 2013, náist samningar og skilyrði umhverfismats verði uppfyllt, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Sameiginlegt mat virkjana við Þeistareyki og álvers á Bakka verður auglýst síðar í mánuðinum.

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra sagði í Fréttablaðinu í gær að hún liti svo á að Alcoa hefði til haustsins að segja til um hvort af álversbyggingu yrði. Erna Indriðadóttir, framkvæmdastjóri hjá Alcoa, segir að enn sé eftir að ljúka rannsóknum á Þeistareykjum og óvíst hve mikil orka sé á svæðinu.

Bergur Elías Ágústsson, stjórnarformaður Þeistareykja, segir fyrirhugað að bora tvær rannsóknarholur á svæðinu. Það gæti náðst fyrir haustið. „Búið er að rannsaka hluta svæðisins sem gefur 200 megawött og það er í umhverfismati. Svæðið er þó mun stærra en gert var ráð fyrir.“

Erna segir enga samninga í gangi um orku. „Alcoa hefur ekki haft neinn forgang að þessari orku og hefur hann ekki eins og staðan er í dag. Við erum eins og hver annar fjárfestir og höfum áhuga á að kaupa þessa orku.“ Hún segir að fyrir 250 þúsund tonna álver þurfi 400 megawött af orku, en stærð álversins ráðist af því hve mikil orka er á svæðinu.

Aðspurð hvort Alcoa hyggi enn á álver á Bakka segir hún það ráðast af því hve mikil orka verður í boði og um hvaða verð semjist. Fyrirtækið hafi mikinn áhuga á verkefninu.

Fréttablaðið greindi frá því að Jean-Pierre Gilardeau, aðstoðarforstjóri Alcoa og stjórnarformaður Fjarðaáls, hefði sagt á fundi í iðnaðarráðuneytinu í október 2008, að engin ákvörðun yrði tekin um Bakka næstu fjögur árin. Erna segir erfitt að staðfesta tveggja ára gömul ummæli, en hugsanlega megi skoða þau í ljósi þess ástands sem þá var. Alltaf hafi verið ljóst að langan tíma taki að rannsaka orkusvæðin.

„Það er verið að ljúka sameiginlegu umhverfismati fyrir virkjanir og álver og það fer vonandi í kynningu síðar í mánuðinum. Við höldum okkar vinnu áfram, ljúkum matinu og skoðum síðan málin.“

kolbeinn@frettabladid.is
erna indriðadóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×