Innlent

Kviknaði líklega í út frá kannabisrækt

Miklar skemmdir Kannabisrækt húsráðanda virðist hafa dregið dilk á eftir sér.Fréttablaðið/pjetur
Miklar skemmdir Kannabisrækt húsráðanda virðist hafa dregið dilk á eftir sér.Fréttablaðið/pjetur
Íbúð í þríbýlishúsi við Marbakkabraut í Kópavogi er mikið skemmd eftir að eldur kom þar upp á þriðja tímanum í gær. Lögregla telur að kviknað hafi í út frá kannabisrækt.

Allt tiltækt slökkvilið var kallað út þegar tilkynnt var um að íbúðin á miðhæð hússins væri alelda. Reykkafarar slökkviliðsins fóru inn í húsið í gær til að kanna hvort fólk væri innandyra. Húsið reyndist hins vegar mannlaust.

Heimir Ríkharðsson hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu staðfestir að frumrannsókn hafi leitt í ljós að líklega hafi kviknað í út frá fjöltengi sem í voru tengd ýmis rafmagnstæki til kannabisræktunar, hitalampar og annað.

Tíu kannabisplöntur fundust á staðnum. Heimir segir að rætt hafi verið við eiganda íbúðarinnar og hann hafi gengist við kannabisræktuninni.

Íbúðin þar sem eldurinn kom upp er stórskemmd. Nokkrar sótskemmdir eru í íbúðinni fyrir ofan, og vatnsskemmdir í þeirri fyrir neðan. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×