Íslenski boltinn

Rúnar: Algjör skandall og ég er brjálaður

Stefán Árni Pálsson skrifar

,,Það er gríðarlega sárt að missa sigurinn úr höndunum eftir að hafa verið 3-2 yfir þegar lítið var eftir,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR-inga, eftir jafnteflið gegn Grindvíkingum í kvöld en leiknum lauk 3-3.

Leikurinn var hluti af 21.umferð Pepsi-deildar karla og fór fram í grenjandi rigningu í Grindavík.

,,Leikurinn var mjög kaflaskiptur, við byrjuðum mun betur og hefðum átt að skora fleiri en tvö mörk í fyrri hálfleik. Grindvíkingar koma svo sterkir inn í leikinn í lok fyrri hálfleiks og voru líklega betri aðilinn í þeim síðari,“ sagði Rúnar.

,,Ég er bara hundfúll að hafa ekki náð að setja þriðja markið mun fyrr. Við áttum að koma boltanum í netið nokkrum sinnum í fyrri hálfleiknum og komast í 3-0 sem hefði sennilega klárað leikinn. Í staðinn hleypum við þeim inn í leikinn þegar þeir minnka muninn og það átti aldrei að gerast,“ sagði Rúnar.

,,Ég er síðan alls ekki sáttur með vítið sem var dæmt á okkur. Dómarinn var í mun betri aðstöðu en línuvörðurinn og það er með hrein ólíkindum að hann hafi flaggað á brot. Brotið á að hafa átt sér stað í fjærhluta vítateigsins frá honum séð og það er bara ekki möguleiki að hann hafi séð þetta betur en Valgeir ,dómari leiksins. Þetta er algjör skandall og ég er brjálaður yfir þessu,“ sagði Rúnar virkilega svekktur að leikslokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×