Íslenski boltinn

Þorvaldur: Góður seinni hálfleikur

Ari Erlingsson skrifar

Þorvaldur Örlygsson þjálfari Framara var sáttur með sína menn í leikslok enda 3-1 sigur í höfn á erkifjendunum í Val.

"Þetta var tvískiptur leikur hjá okkur. Vorum slakir í fyrri og góðir í seinni en sem betur fer vöknuðum við í hálfleik. Við vorum lengi að komast í gang, virkuðum þreyttir og þungir en sýndum svo sannarlega góða takta í seinni hálfleik. "

Aðspurður hvað hann hafði sagt við strákana í hálfleik sem orsökuðu þessi umskipti á spili liðsins hafði Þorvaldur þetta að segja.

„Ég sagði í raun ekkert sérstakt. Menn þurftu hugsa sinn gang og segja við sjálfan sig að þetta væri ekkert að ganga svona. Við lifðum sem betur fer af fyrri hálfeikinn með aðeins 1-0 á bakinu og það var okkur til happs því við vorum auðvitað enn inni í leiknum.“

Tillen bræður voru fremstir meðal jafningja í upprisu Framara í seinni hálfleik og hafði Þorvaldur þetta að segja um ensku bræðurna.

„Þeir geta gert usla og eru mjög hæfileikaríkir leikmenn og spila virkilega vel þegar svo sá gállinn er á þeim. Þeir hafa samt oft farið illa út úr þessum 50/50 atriðum hjá dómurum finnst mér. Stundum er auðvitað réttilega dæmt gegn þeim en alltof oft fara þeir halloka í hjá dómurum. Það er vonandi að það breytist og þeir kannski breytist eitthvað sjálfir líka að þessu leyti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×