Íslenski boltinn

Íslenskir dómarar duglegir að skipta um félög

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þóroddur Hjaltalín Jr.
Þóroddur Hjaltalín Jr. Mynd/Vilhelm
Þóroddur Hjaltalín Jr. er þriðji íslenski FIFA-dómarinn á stuttum tíma sem ákveður að skipta um félag sem hann dæmir fyrir. Allir hafa þessir dómarar skipt úr félagi í úrvalsdeild karla í félag í neðri deildunum. Þetta kom fram á fótbolta.net.

Þóroddur hefur dæmt fyrir Þór á Akureyri en ætlar framvegis að dæma fyrir Samherja. Áður hafði Kristinn Jakobsson skipt úr KR yfir í D-deildarfélagið KFK og Magnús Þórsson skipt úr Keflavík yfir í Reyni Sandgerði.

Kristinn Jakobsson var fyrstur til að skipta en hann gaf þær skýringar að hann vildi fá tækifæri til að dæma toppleiki í lok mótsins þegar úrslitin á Íslandsmótinu eru að ráðast.

Síðustu ár hefur Kristinn ekki fengið að dæma leiki í toppbaráttunni því vinnureglur dómaranefndar KSÍ eru þær að raða Kristni ekki á leiki liða sem eru í kringum KR í toppbaráttunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×