Innlent

Óttast að íslenskar matvöruhefðir leggist af

Við þurfum að nýta okkur hefðbundinn íslenskan mat; skyr, hangikjöt, harðfisk og fleira til að auka vinsældir hans. Þetta segir talsmaður Slow food á Íslandi sem óttast að framleiðsla á þessum matvörutegundum leggist af.

Samtökin Slow food á Íslandi vinna að því markmiði að halda hefðbundinni gæðaframleiðslu íslenskra matvæla á lofti. Þau voru stofnuð á Ítalíu eftir innreið ódýru skyndibitamenningarinnar sem vó að gæðaframleiðslu lítilla framleiðenda. Hér á landi þykir þörf á því að innleiða ákveðið gæðakerfi sem hefur þann tilgang að fjölga framleiðendum.

„Sem er þá staðfesting á því að þeir séu að nota bestu aðferðir við framleiðsluna. Þessi hugsun er lengra komin innan Evrópusamstarfsins," Eygló Björg Ólafsdóttir, talsmaður Slow food hér á landi.

Matvara hafi einnig áhrif á upplifun útlendinga á landinu. „Það er harðfiskur á Vestfjörðum og þar eru þurrkhjallar sem setja mjög mikinn svip á svæðið. Við höfum skyrið, hangikjöt og hverabrauð sem vekur iðulega mikla lukku hjá erlendum ferðamönnum."

Eygló segir að það sé áhyggjuefni ef hefðbundnar íslenskar matvöruhefðir leggjast af. „Í skyrinu eru sem dæmi mjög fáir aðilar sem eru að framleiða samkvæmt þessari upprunalegu íslensku aðferð. Við höfum svolitlar áhyggjur af því og viljum að fleiri ástundi þessar aðferðir," segir Eygló.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×