Innlent

Vindsnúnir snjóboltar myndast einnig á Íslandi

Vindgerðir snjóboltar sem Sólrún Harðardóttir tók myndir af í febrúar á síðasta ári.
Vindgerðir snjóboltar sem Sólrún Harðardóttir tók myndir af í febrúar á síðasta ári.

Vísir sagði frá hjónunum Ron Trevett og Aileen sem urðu steinhissa á dögunum þegar þau gengu út á akur nærri heimili sínu í Somerset í Englandi og sáu þar hundruð snjóbolta sem náttúran hafði búið til ein og óstudd. Um var að ræða einstaklega sjaldgæft fyrirbæri sem er þekktara á köldum slóðum Norður Ameríku.

Veðurstofa Íslands hafði hinsvegar samband við fréttastofu og benti á að eins snjóboltar mynduðust hér á landi síðast í febrúar á síðasta ári. Þá var það Sólrún Harðardóttir sem tók mynd af slíkum snjóboltum á Hólum í Hjaltadal þann 26. febrúar á síðasta ári. Vindurinn fékk smáaðstoð í halla.

Á vef Veðurstofunnar segir: „Stöku sinnum sést fjöldi snjóbolta, sem vindur hefur búið til, á dreif um sléttar snævi þakktar grundir, jafnvel hundruð bolta á einum túnbletti. Ekki er kunnugt um sérstakt nafn á fyrirbrigðinu en kalla má það vindsnúna snjóbolta eða eitthvað í þá áttina. Þetta er ekki beinlínis algengt en þó nógu algengt til þess að boltar af þessu tagi hafa sést á Veðurstofutúninu."

Þá segir ennfremur á vef Veðurstofunnar að stærstu boltarnir af þessu tagi, sem getið er um í gögnum Veðurstofunnar, eru þeir sem Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur lýsir í pistli í tímaritinu Veðrinu (1957).

Hann sá þá í Selskarði (nærri Næfurholti á Rangárvöllum) 5. febrúar 1956 eftir ofsaveður. Skýringin sem hann gefur á myndun boltanna er vafalítið rétt. Minni boltar virðast nokkuð algengir, algengari en Guðmundur heldur, en jafnstórir og þeir sem hann lýsir eru mjög fágætir.

Fyrir sérstaklega áhugasama má lesa meira um boltana sérkennilegu hér. Svo má skoða sérstaklega fallegar myndir af snjóboltunum sem Ólafur Jón Jónsson tók á Selvogsgötunni hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×