Innlent

Brotist inn í sex fyrirtæki í Búðardal

„Við fengum óskemmtilega heimsókn í nótt," segir Jóhannes B. Björgvinsson lögreglumaður í Búðardal í viðtali við Skessuhorn en þar kemur fram að í nótt var brotist inn í sex fyrirtæki sem öll eru staðsett við Vesturbraut, götuna gegnum þorpið.

Skemmdir voru unnir á öllum stöðunum og stolið bæði peningum og verðmætum á um helming staðanna. Á vef Skessuhorns segir að Jóhannes telji að þetta hafi gerst frá klukkan tvö í nótt til sex í morgun og biður hann þá sem hafa orðið vara við grunsamlega umferð á þessum tíma að hafa samband við lögregluna í Búðardal.

Mest var tjónið í KM þjónustunni, en auk skemmda var stolið á annað hundrað þúsund í peningum, tölvubúnaði og talverðu af rafmagnsverkfærum.

Úr handverkshúsinu Bolla var stolið peningum sem og í blómabúðinni Blómalind. Einnig var brotist inn á rafmagnsverkstæði, hjá verktakafyrirtæki og trésmiðju og á stöðunum unnið talsvert tjón en litlu stolið, svo sem í trésmiðjunni þar sem búið var að taka saman dót fram við dyr en það skilið eftir.

Telur lögregla að þar hafi síðast verið farið inn og komið styggð að þjófunum sem þarna voru á ferð. Hægt er að lesa fréttina á Skessuhorninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×