Innlent

Forsetinn svarar fyrir sig

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands segist ekki hafa haft minni samskipti við ríkisstjórnina núna en hann gerði árið 2004. Mynd/ Vilhelm.
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands segist ekki hafa haft minni samskipti við ríkisstjórnina núna en hann gerði árið 2004. Mynd/ Vilhelm.
Síaukinn skilningur er á stöðu Íslands, sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á fundi með fréttamönnum á Bessastöðum í dag. Hann sagði að eftir því sem leið á daginn í gær og í dag hafi skilningur á stöðu Íslands aukist mikið. Honum hafi gefist færi á að skýra afstöðu sína í fjölmörgum fjölmiðlum frá því að hann kynnti ákvörðun sína.

Forsetinn segir að þetta hafi orðið til þess að Íslendingar finni fyrir mun víðtækari alþjóðlegum skilningi á málstaðnum. Leiðari Financial Times þar sem lýst sé stuðningi við ákvörðun forsetans sé viss tímamót í þessum efnum. „Financial Times er eitt helsta málgagn og blað fjármálaheimsins. Það er afar mikilvægt fyrir stöðu okkar Íslendinga að þetta blaði skuli lýsa yfir stuðningi við þá ákvörðun sem ég tók," sagði Ólafur Ragnar.

Hann vísaði jafnframt á bug fullyrðingum um að hann hafi haft minni samskipti við ríkisstjórnina um ákvörðun sína en hann hafi gert árið 2004. Hann hafi til dæmis fundað með fjórum ráðherrum síðastliðinn sunnudag áður en að hann tók ákvörðun sína. Það hafi hann ekki gert árið 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×