Fótbolti

Philipp Lahm tekur við fyrirliðabandinu af Ballack

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Philipp Lahm.
Philipp Lahm. Mynd/AFP
Philipp Lahm verður fyrirliði þýska landsliðsins á HM í Suður-Afríku í sumar en landsliðsþjálfarinn Joachim Löw tilkynnti þetta í morgun um leið og hann gaf það út að Manuel Neuer verði aðalmarkvörður liðsins.

„Lahm er í heimsklassa í sinni stöðu og mun taka við stöðu fyrirliðastöðunni. Við erum með ungt lið og leiðtogaábyrgðin verður á mörgum herðum á mótinu," sagði Joachim Löw. Lahm er 26 ára hægri bakvörður sem á að baki 64 landsleiki. Hann var fyrirliði liðsins í einum leik á síðasta ári þegar Michael Ballack og Miroslav Klose voru ekki með.

„Bastian Schweinsteiger tekur við stöðu Ballack á vellinum og verður varafyrirliði liðsins," sagði Löw sem fékk góða hjálp frá markvarðarþjálfaranum Andreas Köpke við að velja aðalmarkvörðinn.

Manuel Neuer er 27 ára markvörður Schalke 04 en hann tekur við stöðu Rene Adler sem missti af HM vegna rifsbeinsbrots. Tim Wiese hjá Werder Bremen verður varamarkvörður og þriðji markvörður verður Hans-Joerg Butt, markvörður Bayern Munchen.

„Við þurftum að ákveða okkur þegar Alder meiddist. Við ákváðum að velja Neuer og hann verður í markinu í vináttuleiknum á móti Ungverjum. Þetta var erfið ákvörðun, Wiese átti mjög gott tímabil og Butt spilaði í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Nú þurfum við að hjálpa þeim að sætta sig við þessi vonbrigði," sagði Köpke.

Þjóðverjar eiga eftir að spila æfingaleiki við Ungverja og Bosníumenn en fyrsti leikurinn á HM er á móti Áströlum 13. júní.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×