Innlent

Tvískiptingin lifir góðu lífi

Framsóknarflokkurinn hefur farið í gegnum allmikla endurnýjun, en ekki þykir öllum nóg um. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er vinsæll formaður í ákveðnum kreðsum, en aðrir vilja opnari stjórnunarstíl.
Framsóknarflokkurinn hefur farið í gegnum allmikla endurnýjun, en ekki þykir öllum nóg um. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er vinsæll formaður í ákveðnum kreðsum, en aðrir vilja opnari stjórnunarstíl. fréttablaðið/stefán

Tekist var á um oddvitasætið í borginni og hafði Einar Skúlason þar betur en Óskar Bergsson. Engan veginn hefur gróið um heilt á milli þeirra, eða stuðningsmanna þeirra, og ljóst er að mikið verk er fyrir höndum ef sameina á flokksmenn í Reykjavík. Trúnaðarmenn hafa þó hist að kosningum afstöðnum.

Staðreyndin er sú að fulltrúum flokksins í sveitarstjórn fjölgaði um fjórðung og víða unnust miklir sigrar. Það undirstrikar enn og aftur hve flokkurinn er landsbyggðarmiðaður.

Heimildarmönnum blaðsins ber saman um að það verði verkefni nýrrar forystu að finna flokknum stað í pólitísku litrófi nútímans. Rótunum á landsbyggðinni verði að flétta saman við höfuðborgarsvæðið, þar sem meirihluti landsmanna býr.

Sigmundur Davíð var kjörinn formaður í janúar 2009 og þótti kjör hans merki um endurnýjun í forystunni. Í kosningunum 2009 tóku margir nýir þingmenn sæti og flokksmenn hafa haldið því á lofti að þeir hafi brugðist við kalli þjóðarinnar um uppgjör og endurnýjun.

Enn á ný virðist átakalínan liggja eftir landslaginu. Heimildarmenn flokksins í Reykjavík tala um að þeir hafi fengið að heyra það að sú endurnýjun væri ekki trúverðug. Ekki hafi tekist að koma því að hjá kjósendum að Framsóknarflokkurinn stæði fyrir eitthvað nýtt. Einstrengingslegur málflutningur forystunnar hafi oftar en ekki orðið þeim fjötur um fót.

Á móti kemur að á landsbyggðinni, víða að minnsta kosti, hafa menn verið ánægðir með staðfestu forystunnar í málum eins og Icesave og þykir formaðurinn hafa verið skeleggur.

Framsóknarmenn þekkja það að forystumenn þeirra séu ekki einhuga og nægir að nefna Halldór Ásgrímsson og Guðna Ágústsson í þeim efnum. Mörgum heimildarmönnum blaðsins ber saman um að flokksmenn séu leiðir á slíku karpi og vilji að forystan leysi sín mál í kyrrþey.

Aðrir óttast hins vegar að því fylgi þöggun og að á nýjum tímum verði menn að geta rætt málin og gagnrýnt eins og þarf. Guðmundur Steingrímsson, þingmaður flokksins, bað forystuna að líta í eigin barm að kosningum loknum. Formaðurinn tók því með tali um gjörningalist og að Guðmundur væri ósvífinn. Þetta þykir mörgum benda til að opin umræða eigi ekki upp á pallborðið hjá núverandi forystu.

Þótt þeir Sigmundur og Birkir Jón Jónsson varaformaður séu ekki alltaf sammála, þykja þeir samstiga og halda sínum ágreiningi ekki hátt á lofti. Það þýðir þó ekki að hann sé ekki til staðar.

Höskuldur Þór Þórhallsson bauð sig fram gegn Sigmundi í fyrra, en ólíklegt þykir að hann endurtaki leikinn á næsta flokksþingi, sem verður að ári. Þá er ólíklegt að varaformaðurinn hyggi á meiri metorð í þessari lotu.

Helst er það Guðmundur Steingrímsson sem nefndur er til sögunnar sem arftaki Sigmundar og orða sumir það þannig að það sé bara spurning um hvenær en ekki hvort hann verði formaður Framsóknarflokksins. Hvort hann leggur í slaginn á fyrsta kjörtímabilinu gegn formanni sem nokkuð góð sátt ríkir um skal ósagt látið.

Það er því útlit fyrir að Sigmundar Davíðs bíði það verkefni að endurreisa Framsóknarflokkinn á höfuðborgarsvæðinu, en halda samhliða í fylgið á landsbyggðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×