Innlent

100 milljarða svigrúm til leiðréttingar

Helgi Hjörvar.
Helgi Hjörvar.

Helgi Hjörvar stjórnarþingmaður segir 100 milljarða króna svigrúm til að leiðrétta lán heimilanna. Án almennra leiðréttinga væru þau skilaboð send út í þjóðfélagið að skuldagleðin ein njóti skilnings. Forsætisráðherra tók ekki undir þessi orð á Alþingi í morgun.

Ríkisstjórnin hefur ítrekað sagt að ekki væri svigrúm til almennra leiðréttinga á húsnæðislánum heimilanna. 20% leiðrétting myndi kosta 229 milljarða króna. Nú hafa hins vegar tveir stjórnarþingmenn, sem eru formenn tveggja helstu efnahagsnefnda alþingis, þau Lilja Mósesdóttir Vinstri grænum og Helgi Hjörvar Samfylkingu lýst stuðningi við almennar leiðréttingar.

Helgi rökstyður mál sitt í grein í Fréttablaðinu í dag. Þar bendir hann á að viðskiptabankarnir hafi fengið tugmilljarða afslátt frá sínum kröfuhöfum af þeim 500 milljörðum sem almenningur skuldi þeim í húsnæðislán. Málið hafi hins vegar strandað á lífeyrissjóðum og Íbúðalánasjóði.

Að mati Helga hefur staðan nú breyst eftirr nýlegan og hagstæðan samning Seðlabankans við Seðlabankann í Lúxemborg um kaup á skuldabréfapakka sem innihélt íslensk íbúðabréf. Lífeyrissjóðirnir hafi keypt þessi skuldabréf og styrkt stöðu sína um á þriðja tug milljarða. Ekki sé óeðlilegt að ávinningur lífeyrissjóðanna renni til leiðréttinga húsnæðislána og það sama gildi um Íbúðalánasjóð, að mati Helga.

Hann hafnar þeim rökum að ekki eigi að leiðrétta lán fólks sem ekki þurfi á að halda, það fólk hafi líka sætt óréttmætu vaxtaokri - auk þess séu það ekki góð skilaboð inn í framtíðina að skuldagleðin ein njóti skilnings því hingað til hafi einkum verið komið til móts við þá sem lengst gengu í skuldsetningu.

Grein Helga má lesa hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×