Innlent

Vilja allar herflugvélar burt af vellinum

Borgarráð hefur skorað á flugmálayfirvöld og utanríkisráðuneyti að stöðva umferð herflugvéla um Reykjavíkurflugvöll.
Fréttablaðið/Pjetur
Borgarráð hefur skorað á flugmálayfirvöld og utanríkisráðuneyti að stöðva umferð herflugvéla um Reykjavíkurflugvöll. Fréttablaðið/Pjetur

Borgarráð hefur skorað á utanríkisráðuneyti og flugmálayfirvöld að beita sér fyrir því að umferð herflugvéla um Reykjavíkurflugvöll verði stöðvuð. Áskorun þessi var samþykkt einróma á fundi ráðsins í gær.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að samkvæmt tölum Isavia, sem annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla og lendingarstaða á Íslandi, hafi 37 skilgreindar herflugvélar lent á Reykjavíkurflugvelli á árinu, en í fyrra voru þær 28 talsins. Þar á meðal eru til dæmis ferjuflug, þyrluflug og eftirlitsflug.

Í tilkynningunni segir að flugmálayfirvöld hafi ekki heimildir til að afla upplýsinga um farm herflugvéla í styttri stoppum, þar á meðal hvort vélarnar beri hættuleg vopn, sprengiefni eða kjarnavopn.

Þá er vísað til friðarhefðar Íslendinga og framlags Reykjavíkurborgar í baráttunni fyrir friði, meðal annars með uppsetningu friðarsúlu Yoko Ono og nýlegrar aðildar að samtökunum Mayors for Peace. Þá segir í tilkynningunni: „Friðsöm og ábyrg borgaryfirvöld geta ekki unað við óbreytt ástand á Reykjavíkurflugvelli.“- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×