Innlent

Enginn axlar ábyrgð

Höskuldur Kári Schram skrifar

Enginn af þeim sem sakaðir eru um að hafa gert mistök eða sýnt vanrækslu í starfi í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hafa gengist við ábyrgð. Um er ræða fjóra fyrrverandi ráðherra og átta embættismenn. Allir vísa þeir ásökunum á bug og telja að ábyrgðin liggi hjá öðrum en þeim sjálfum.

Tólf einstaklingar fengu tækifæri til að koma á framfæri skriflegum athugasemdum vegna skýrslu rannsóknarnefndar alþingis. Um er ræða einstaklinga sem nefndin telur að hafi gert mistök í starfi eða sýnt vanrækslu.

Þetta eru fjórir ráðherra, þar á meðal Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra.

Þá fengu átta embættismenn að koma á framfæri athugasemdum - þar á meðal Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri og Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri.

Allir vísa því á bug að hafa gert mistök eða sýnt vanrækslu og í athugasemdum þessara einstaklingar er ítrekað vísað til þess að það hefði verið á ábyrgð annarra stofnana og ráðherra - eða embættismanna - að fara með viðkomandi verkefni.

Davíð Oddsson, sakar rannsóknarnefndina meðal annars um þekkingarleysi og Geir H. Haarde skellir skuldinni nánast alfarið á stjórnendur og helstu eigendur bankanna. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segist ekki hafa búið yfir nægum upplýsingum.

Nú þegar skýrsla rannsóknanefndarinnar hefur loksins litið dagsins ljós liggur það eitt fyrir að enginn gengst við ábyrgð vegna hrunsins. Rétt er þó að taka fram að Björgvin G. Sigurðsson lét af embætti sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×