Íslenski boltinn

Síðustu 4 félög hafa fengið eitthvað út úr sínum fyrsta leik í efstu deild

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fjölnismenn byrjuðu vel í sínum fyrsta leik í efstu deild.
Fjölnismenn byrjuðu vel í sínum fyrsta leik í efstu deild. Mynd/E.Stefán

Selfyssingar leika í kvöld sinn fyrsta leik frá upphafi í efstu deild þegar þeir taka á móti Fylkismönnum á gervigrasinu á Selfossi en fimm leikir fara þá fram í 1.umferð Pepsi-deildar karla.

Selfyssingar ættu að vera bjartsýnir á hagstæð úrslit í kvöld þegar litið er á frumraunir félaga undanfarin ár. Síðustu fjögur félög hafa náð einhverju út úr sinni frumraun í efstu deild þar af unnu Fjölnismenn 3-0 útisigur á Þrótti fyrir tveimur árum síðan.

Lið HK (2007) og ÍR (1998) náðu bæði jafntefli í sínum fyrsta leik og Skallagrímur (1997) vann 3-0 sigur á Leiftri í síðasta leik þar sem félag var í sömu stöðu og Selfoss í kvöld - á heimavelli í sínum fyrsta leik í efstu deild.

Síðasta félag til þess að tapa frumraun sinni í efstu deild var lið Grindavíkur sem komst í 1-0 á móti Keflavík á heimavelli í fyrsta leik sínum 1995 en tapaði leiknum síðan 1-2.

Öll félög sem hafa spilað sinn fyrsta leik í efstu deild frá og með árinu 1990, sex talsins, hafa verið á undan að skora sitt fyrsta mark í efstu deild en að fá á sig sitt fyrsta mark í efstu deild. Fylkismenn (1989) eru síðustu nýliðarnir sem fengu á sig mark áður en þeir skoruðu sitt fyrsta mark í efstu deild.

Fyrstu leikir félaga í efstu deild undanfarin ár:

Fjölnir 2008

3-0 sigur á Þrótti á útivelli

Gunnar Már Guðmundsson skoraði fyrsta markið eftir 26 mínútur

HK 2007

0-0 jafntefli á móti Víkingi á útivelli

Jón Þorgrímur Stefánsson skoraði fyrsta markið í 2. umferð eftir 128 mínútur

ÍR 1998

1-1 jafntefli á móti Grindavík á útivelli

Arnljótur Davíðsson skoraði fyrsta markið eftir 28 mínútur

Skallagrímur 1997

3-0 sigur á Leiftri á heimavelli

Valdimar K. Sigurðsson skoraði fyrsta markið eftir 53 mínútur



Grindavík 1995


1-2 tap fyrir Keflavík á heimavelli

Grétar Einarsson skoraði fyrsta markið eftir 21 mínútu (kom Grindavík í 1-0)

Stjarnan 1990

2-0 sigur á Þór Akureyri á útivelli

Árni Sveinsson skoraði fyrsta markið eftir 68 mínútur



Fylkir 1989


0-1 tap fyrir Fram á útivelli

Guðmundur Magnússon skoraði fyrsta markið í 2. umferð eftir 130 mínútur






Fleiri fréttir

Sjá meira


×