Innlent

Viðsnúningar Bjarna Benediktssonar

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur mælt með samningaleið við Breta og sagt dómstólaleiðina ófæra og mælt með dómstólaleiðinni.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var formaður utanríkismálanefndar sem lagði til að samið yrði um Icesave. Síðan var hann þeirrar skoðunar að fara ætti dómstólaleiðina.

Hinn 30. desember síðastliðinn greiddi Bjarni síðan atkvæði með þeirri tillögu Péturs Blöndal að halda ætti þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin og gagnrýndi ríkisstjórnina jafnframt harkalega fyrir að vilja ekki þjóðaratkvæðagreiðslu.

Á fundinum í Valhöll í dag sagði Bjarni hins vegar að það skipti ekki öllu hvort hætt verði við þessa samninga og byrjað upp á nýtt fyrir eða eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Bjarni var formaður allsherjarnefndar sumarið 2004 og gagnrýndi þá forsetann fyrir að fara gegn vilja þingsins. Eftir synjun forsetans á Icesave-lögunum sagði Bjarni að með ákvörðuninni væri forsetinn samkvæmur sjálfum sér.

Þorsteinn Pálsson var meðal fundargesta í Valhöll í dag, en hann segir í grein sinni í Fréttablaðinu í dag að sumir þeirra sem gagnrýndu forseta Íslands hvað mest fyrir að synja fjölmiðlalögunum árið 2004 hrósi honum nú fyrir samkvæmni. Þorsteinn segir að menn verði ekki dyggðugir af því að endurtaka mistök sín og hrósið sé því hvorki málefnalegt né maklegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×