Innlent

Stöðva ferðir vanbúins fólks

Gissur Sigurðsson skrifar
Lögreglumenn eru á leið til eldstöðvanna til að stöðva ferðir vanbúins fólks.
Lögreglumenn eru á leið til eldstöðvanna til að stöðva ferðir vanbúins fólks. Mynd/Pjetur
Lögreglumenn frá Hvolsvelli eru nú á leið til eldstöðvanna á Fimmvörðuhálsi, til að stöðva ferðir vanbúins fólks, sem mun vera á leiðinni þangað. Engir björgunarsveitarmenn eru nú á vettvangi og getur ferðafólk því ekki stólað á nærveru þeirra.

Nokkrir ferðamenn reyndu líka í gærkvöldi að komast alveg að fyrri gígnum þar sem gosið er hjaðnað, en lögreglan bægði þeim frá. Í gærkvöldi var fjölmenni við gosstöðvarnar á að minnstakosti hundrað bílum og stóð umferð langt fram á nótt.

Lögreglan ítrekar að að fólk haldi sig í að minnstakosti kílómetra fjarlægð frá gosstöðvunum, líka frá eldri goskatlinum, enda getur gos hafist þar á ný hvenær sem er. Þá varar hún við vatnavöxtum í Hvanná og Krossá í Þórsmörk og gufusprengingum í Ytra-Hvannagili.

Þá ítreka Almannavarnir að þeir sem hyggjast fara að gosstöðvunum virði lokanir, fari um svæðið með gát og búi sig í samræmi við veðurspáog aðstæður. Og spáin í dag er breytileg eða suðlæg átt, 5 til 10 metrar á sekúndu og stöku él.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×