Innlent

Mesta öskufallið til þessa í bæjarfélögum Suðurlands

Öskufall í bæjarfélögum Suðurlands í dag var það mesta til þessa frá því toppgígur Eyjafjallajökuls hóf að gjósa fyrir sléttum mánuði. Á Hvolsvelli sjá íbúar fram á margra daga hreinsunarstarf og undir Eyjafjöllum eru bændur fyrir löngu búnir að fá meira en nóg.

Á Selfossi var örfínt öskulagið auðgreinanlegt á bílum þegar menn fóru á ról í morgun. Eftir því sem nær dró eldstöðinni urðu öskumerkin skýrari og bæjarskiltin grárri og frá Hellu sáum við öskumökkinn ná hærri hæðum en áður.

Hvolsvöllur fékk nú í fyrsta sinn frá upphafi gossins aldeilis að finna fyrir eldfjallinu. Þar bókstaflega rigndi öskunni niður í morgun. Þar voru allir bílar öskugráir og þvottaplanið var eftirsóttasti staðurinn. Þar biðu menn í röðum eftir að komast að til að smúla.

Menn neyddust til að loka sundlaugunni á Hvolsvelli enda vart hægt að bjóða gestum upp á baða sig í öskugrái vatni. Sundlaugarstjórinn sér fram á nokkurra daga lokun.

Það furðulega var að öll þessi aska féll að mestu á tiltölulega skömmum tíma í morgun. Á Hvolsvelli féll meginhluti hennar á aðeins um tuttugu mínútum.

Um hádegisbil lagði mökkinn yfir Landeyjarnar. Við ókum austar í átt að Eyjafjöllum. Á bænum Sauðhúsvelli var bóndinn að sækja heyrúllur fyrir sauðféð enda dundi á honum öskufallið.

Við sáum dökkan öskumökkinn hægt og bætandi færa sig nær Vestmannaeyjum og um miðjan dag fór öskufallið að dynja á Eyjamönnum.

Í sveitunum sem þegar hafa orðið verst út, beint suður af gígnum, hefur enn bætt í öskuna. Á Raufarfelli hafa þökin þegar verið spúluð þrisvar en nú hefur eins til tveggja sentímetra lag bæst við. Þarna eru menn fyrir löngu búnir að fá meira en nóg af öskufalli.

Mjólkurbílstjórinn, sem daglega fer á milli, skynjar það glöggt. Það versta segir hann að sé óvissan. Það sama segir yfirlögregluþjóninn sem nú eru búinn að standa eldgosavaktina í nærri tvo mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×