Markvörðurinn Ómar Jóhannsson og bakvörðurinn Guðjón Árni Antoníusson hafa báðir skrifað undir nýjan samning við Keflavík.
Þeir voru báðir með lausan samning og segir á heimasíðu Keflavíkurliðsins að unnið sé að því að ganga frá samningum annarra leikmanna sem eru í sömu stöðu.
Báðir hafa leikið með Keflavík í langan tíma. Ómar á að baki 140 leiki í deild og bikar og Guðjón Árni hefur skorað fjórtán mörk í 179 leikjum.
Meðal annarra leikmanna sem eru samningslausir í Keflavík má nefna Alen Sutej, Bjarna Hólm Aðalsteinsson, Brynjar Örn Guðmundsson, Einar Orra Einarsson, Hauk Inga Guðnason, Hólmar Örn Rúnarsson og Paul McShane.