Fótbolti

Glenn Hoddle ánægður með aðstöðu enska landsliðsins í Suður-Afríku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glenn Hoddle.
Glenn Hoddle. Mynd/GettyImages
Glenn Hoddle, fyrrum leikmaður og stjóri Tottenham, hrósar mikið aðstöðunni sem enska landsliðið mun eyða tíma sínum milli leikja á HM í Suður-Afríku í sumar. Hoddle heimsótti Bafokeng Sports Campus á dögunum.

„Þetta er frábært og algjör topp æfingaaðstaða," sagði Glenn Hoddle í viðtalið við BBC. Hann hrósaði einnig hótelinu sem liðið mun gista á. BBC fékk Hoddle einnig til að velta fyrir sér möguleikum enska liðsins.

„Brasilía og Spánn eru sigurstranglegust en það getur margt farið úrskeiðis hjá þeim. Spánverjar hafa sem dæmi aldrei verið í svona aðstöðu og það verður áhugavert að sjá hvernig þeir ráða við það," sagði Hoddle.

„Fyrir utan þessi tvö eru sex eða sjö þjóðir sem geta orðið heimsmeistarar. England er eitt af þessum liðum. Við getum unnið þetta en þá þarf liðið að klára sjö leiki og halda leikmönnum heilum út keppnina. Ítalirnir sýndu fram á þetta á HM 2006," sagði Hoddle.

„Þetta verður stórt próf fyrir enska landsliðið. Við erum með gott lið en það á eftir að koma í ljós hvort að við séum með frábært lið. Þeir fá nú tækifæri til að sanna styrk sinn og komast í sögubækurnar," sagði Hoddle.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×