Enski boltinn

Portsmouth enn og aftur komið með nýjan eiganda

Ómar Þorgeirsson skrifar

Botnlið Portsmouth í ensku úrvalsdeildinni hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarið en félagið er í skuldasúpu og óljós staða þess utan vallar hefur ekki beint verið til þess að hjálpa liðinu innan vallar.

Samkvæmt heimildum Sky Sports hefur nú félagið enn og aftur skipt um eiganda en það mun vera í fjórða skiptið sem það gerist á þessu keppnistímabili.

Kaupsýslumaðurinn Balram Chainrai frá Hong Kong og fyrirtæi hans Portpin, sem er í eigu Chainrai og ísraelska kaupsýslumannsins Levi Kushnir, hefur tekið yfir 90 prósenta hlut í Portsmouth.

90 prósenta hluturinn í félaginu var áður í eigu Ali Al-Faraj en honum hefur ekki tekist að endurfjármagna sig til þess að greiða niður ört hækkandi skuldir félagsins en ásamt því að skulda fyrrum eigandanum Alexandre Gaydamak um 30 milljónir punda var Faraj búinn að fá 17 milljón punda lán frá Portpin sem hann gat ekki borgað aftur.

Portsmouth hefur þess utan ekki enn náð að borga leikmönnum og öðrum starfsmönnum félagsins laun fyrir janúarmánuð og því verður á nógu að taka fyrir nýja eigendur félagsins við að reyna að koma því aftur á fjárhagslega traustan grunn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×