Innlent

Þingmenn í jólafrí í dag

Sigríður Mogensen skrifar
Þingmenn gæddu sér á konfekti fyrir helgi. Mynd/ GVA.
Þingmenn gæddu sér á konfekti fyrir helgi. Mynd/ GVA.
Alþingi hefur ákveðið að ráðast í umfangsmikla rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs. Rannsaka á fjármögnum sjóðsins á útlánum til viðskiptavina og sparisjóða og áhættustýringu.

Síðasti þingfundur fyrir jólafrí hófst klukkan tíu í morgun en 18 mál eru á dagskrá þingsins í dag. Meðal annars verður tekið fyrir frumvarp fjármálaráðherra um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki. Markmið laganna er að afla ríkinu tekna til að mæta þeim mikla kostnaði sem fallið hefur á ríkissjóð vegna bankahrunsins og einnig að draga úr áhættusækni fjármálafyrirtækja með því að leggja sérstakan skatt á skuldir þeirra. Skatturinn nemur 0,05 prósentum.

Í gær samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu sjö þingmanna úr öllum flokkum um að hefja rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs frá þeim tíma sem breytingar voru gerðar á fjármögnun og lánareglum sjóðsins sem hrint var í framkvæmd árið 2004. Þá vill Alþingi að fram fari endurskoðun á stefnu og starfsemi Íbúðalánasjóðs. Rannsóknin á að fara fram á vegum Alþingis, sem telur mikilvægt að fá skýra mynd af starfsemi Íbúðalánasjóðs.

Samhliða fari fram rannsókn á innkomu bankanna á húsnæðislánamarkað árið 2004 og áhrif hennar. Að mati rannsóknarnefndar Alþingis voru breytingar á útlánareglum sjóðsins með stærri hagstjórnarmistökum í aðdraganda bankahrunsins. Taldi nefndin að innleiðing 90% lána og hækkun hámarkslána hafi verið þensluhvetjandi mistök. Markmiðið með rannsókn á vegum Alþingis er að meta áhrifin af þessum breytingum og áhrif starfsemi Íbúðalánasjóðs á stjórn efnahagsmála. Skipuð verður þriggja manna nefnd sem skila á skýrslu um málið innan sex mánaða frá skipun. Nefndin mun hafa sambærilegar heimildir til skýrslutöku og gagnaöflunar og rannsóknarnefnd Alþingis hafði, en þær voru mjög víðtækar.

Eins og fram hefur komið í fréttum okkar þarf ríkissjóður að leggja Íbúðalánasjóði til rúmlega 30 milljarða í lok ársins vegna slæmrar stöðu sjóðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×