Innlent

AGS á enga aðdáendur í Vinstri grænum

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á enga aðdáendur í Vinstri grænum segir Katrín Jakobsdóttir, varaformaður flokksins. Andstaða flokksins við inngöngu Íslands í Evrópusambandið var ítrekuð á flokkráðstefnu sem lauk í gær.

Í ályktun flokksráðstefnu Vinstri grænna er meðal annars lýst yfir áhyggjum af stöðu fjölmiðla hér á landi. Þar segir að fjölmiðlum sé nú grímulaust beitt sem áróðurstækjum eigenda og meðal annars vísað til morgunblaðsins í því samhengi. Þá segir ennfremur að rekstur og tilgangur 365 miðla - sem rekur meðal annars Fréttastofu Stöðvar tvö og Vísis - sé illskiljanlegur í ljósi hrunsins og framtíð allra miðla óljós.

Í ályktun flokkráðstefnunnar er andstaða flokksins við hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu ítrekuð og eru ráðherrar og þingmenn flokksins hvattir til að halda þessari stefnu á lofti.

„Þetta er raunverulega ítrekun á stefnu sem sem lá þegar fyrir. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er tekið sérstaklega fram að flokkarnir áskilji sér rétt til að berjast hvorir á sínum vettvangi," segir Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri grænna. „Þarna er í raun og veru verið að brýna okkur í því sem þegar hefur legið fyrir og árétta afstöðuna í málinu."

Katrín vísar því á bug að flokkurinn sé klofinn í veigamiklum málum eins og Icesave. „Það er eins með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég myndi nú segja að hann ætti nú líklega enga aðdáendur í flokknum þrátt fyrir ólíkar nálganir. Ég held bara hreinlega í svona viðfangsmálum sé eðlilegt að fólk hafi að jafnaði ólíkar nálganir," segir Katrín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×