Innlent

Vekja athygli ríkisstjórnar Norðulanda á mikilvægi ferðaþjónustunnar

Ferðamenn í Reykjavík á rigningardegi. Mynd úr safni.
Ferðamenn í Reykjavík á rigningardegi. Mynd úr safni.

Samtök starfsfólks í ferðaþjónustugreinum á Norðurlöndum, NU HRCT, sendu í gær opið bréf til ríkisstjórna Norðurlandanna þar sem vakin er athygli á mikilvægi ferðaþjónustunnar og bent á að Norðurlöndum ber að nota þau tækifæri sem þau ráða yfir til að grípa til öflugrar markaðssetningar Norðurlanda á sameiginlegum ferðamarkaði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.

„Miðað við þróun ferðamarkaðar í Evrópu og á heimsvísu hafa Norðurlönd glatað mikilvægu markaðshlutfalli. Samtök launafólks hvetja því ríkisstjórnirnar til að fara yfir þá möguleika sem starfsgreinin hefur til að fjölga atvinnutækifærum og bæta markaðssetningu svo þróunin í þessum efnum verði að minnsta kosti í sama hlutfalli og þróunin annars staðar í Evrópu," segir m.a. í bréfinu sem hér fylgir.

Grípa verði til sameiginlegs og norræns átaks, þar sem nýsköpun og sjálfbærni eru lykilatriði segja samtökin og vísa m.a. til þeirra tillagna sem Norræna nýsköpunarmiðstöðin (NICe) hefur lagt fram sem og til yfirlýsingar Ráðherranefndarinnar um Sjálfbæra ferðaþjónustu.

NU HRCT eru samtök stéttarfélaga starfsfólks á hótelum, í veitingahúsum, skyndibitastöðum og ferðaþjónustu í Finnlandi, á Íslandi, í Noregi, Svíþjóð og Danmörku og sem hafa gildandi kjarasamninga við fulltrúa atvinnurekenda og fyrirtækja í þessum atvinnugreinum. Um er að ræða 7 samtök stéttarfélaga með samtals um 115.000 félagsmenn á Norðurlöndum. Starfsgreinasambandið og Matvís eru aðilar að Norræna sambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×