Lífið

Rafópera um dauðann

úr farfuglinum Óperan verður frumsýnd í Salnum í dag en hún er hluti af Myrkum músíkdögum.
úr farfuglinum Óperan verður frumsýnd í Salnum í dag en hún er hluti af Myrkum músíkdögum.
Í dag kl. 17 frumsýnir Strengjaleikhúsið óperuna Farfuglinn eftir Hilmar Þórðarson í Salnum, Kópavogi. Frumsýningin er hluti af Myrkum músíkdögum.

Óperan fjallar um dauðann, en handritið er unnið upp úr Móðurinni, sögu H.C.Andersen og Farfuglum, ljóðabók Rabindranath Tagore. Verkinu er ekki síst ætlað að höfða til ungs fólks og í því er leitast við að draga fram fegurðina að baki þeirri staðreynd að dauðinn er áframhald og afleiðing lífsins.

Í verkinu er blandað saman lifandi tónlistarflutningi og rafhljóðum. Áhorfendur fá aðgang að tæknigöldrum raftónlistarinnar um leið og þeir njóta söngs og hljóðfæraleiks tónlistarmanna í fremstu röð. Markmiðið er að kynna fyrir yngri kynslóðinni nýsköpun í íslenskri tónlist í formi nútímaóperu og þá möguleika sem það listform hefur upp á að bjóða með tilkomu tölvutækninnar.

Flytjendur eru Ingibjörg Guðjónsdóttir sópran, Jóhann Smári Sævarsson bassi, Halla Messíana Kristinsdóttir sópran, Melkorka Ólafsdóttir þverflautur, Rúnar Óskarsson klarinettur og Gísli Galdur Þorgeirsson rafslagverk og hljóð. Handrit, leikstjórn, leikmynd og búningar eru í höndum Messíönu Tómasdóttur.

Skólasýningar á óperunni verða 1., 2., 3. og 4. febrúar á vegum Tónlistar fyrir alla í Kópavogi og opin kvöldsýning 8. febrúar. Hinn 23., 24. og 25. febrúar verða svo sýningar í Gerðubergi á vegum Tónlistar fyrir alla. - drg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.