Fótbolti

Carragher: Capello hafði mikil áhrif

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Æfingabúðir enska landsliðsins eru í austurrísku ölpunum. Hér stillir Jamie Carragher sér upp fyrir ljósmyndara.
Æfingabúðir enska landsliðsins eru í austurrísku ölpunum. Hér stillir Jamie Carragher sér upp fyrir ljósmyndara. Nordic Photos / Getty Images

Jamie Carragher sagði að það hafði mikið að segja að Fabio Capello væri landsliðsþjálfari þegar hann tók ákvörðun um að gefa aftur kost á sér í enska landsliðið.

Carragher hætti að gefa kost á sér fyrir nokkrum árum en nú eru líkur á því að hann sé á leið til Suður-Afríku með enska landsliðinu.

„Capello er einn allra besti knattspyrnustjóri heimsins," sagði Carragher á blaðamannafundi enska landsliðsins í gær. „Ég var alltaf að spyrja Steven Gerrard hvernig stjórinn væri. Það hafði mikil áhrif á mig."

Carragher á þó ekki von á því að hann muni halda áfram að spila með landsliðinu eftir að HM lýkur í sumar. „Ég held að þetta sé bara í þetta skiptið," sagði hann.

Alls eru 30 leikmenn í æfingahópi Englands en aðeins 23 leikmenn geta farið með til Suður-Afríku. Góðar líkur eru á því að Carragher verði í þeim hópi þar sem Carragher er sá eini í hópnum sem getur leyst af Glen Johnson í stöðu hægri bakvarðar.

Carragher sagði enn fremur að hann gaf aðeins kost á sér eftir að hann væri búinn að fullvissa sjálfan sig að hann væri þar með ekki að stela sæti af öðrum leikmanni.

„Ég er ekki heimskur," sagði hann. „Ég hefði ekki viljað að einhver annar hefði komið inn á síðustu stundu og tekið mitt sæti í landsliðinu eftir að ég væri búinn að vera í liðinu í tvö ár. Ég velti þessu mikið fyrir mér."

„Ég nefndi þetta við Steven [Gerrard] og eiginkonu mína enda var planið hjá okkur í fjölskyldunni að fara í Disneyland á mánudaginn. Við þurftum að aflýsa því."

„En nokkrum dögum síðar minntist ég á þetta við pabba minn og son. Allir virtust mjög ánægðir og spenntir fyrir mína hönd og vildu ólmir að ég færi."

Carragher á að baki 34 leiki með enska landsliðinu, þann fyrsta lék hann árið 1999 en þann síðasta gegn Brasilíu þann 1. júní 2007.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×