Innlent

Fréttalesari BBC tekin á teppið fyrir að verja málstað Íslendinga

Sally Magnusson fékk skömm í hattinn fyrir að tala máli Íslendinga.
Sally Magnusson fékk skömm í hattinn fyrir að tala máli Íslendinga.

Sally Magnusson, fréttalesari hjá BBC Scotland var á dögunum tekin á teppið af yfirboðurum sínum fyrir að brjóta reglur breska ríkisútvarpsins. Sally, sem er dóttir sjónvarpsmannsins víðfræga Magnúsar Magnússonar og þarafleiðandi hálf-íslensk, sendi inn lesendabréf til bresks dagblaðs þar sem hún gagnrýndi bresk yfirvöld fyrir óbilgirni í Icesave deilunni og spurði hvers vegna vextir á láninu væru ekki lægri en það sem samið var um, eða 5,5 prósent.

Breska blaðið The Daily Mail segir frá málinu í dag en í bréfinu benti Sally á þá staðreynd að nær allir Íslendingar væru sáttir við að standa skil á Icesave-skuldbindingunum. Hins vegar væri deilt um með hvaða hætti og á hvaða kjörum lánin verði greidd til baka. „Hvers vegna krefjast Bretar 5,5 prósenta fastra vaxta? Hvers vegna eru vextirnir ekki tvö eða þrjú prósent? Við myndum varla finna fyrir því en Ísland myndi svo sannarlega gera það," skrifaði Sally.

Talsmaður BBC Scotland staðfestir við Daily Mail að Sally hafi með bréfinu brotið vinnureglur stofnunarinnar, sem banni starfsmönnum á fréttastofu að taka þátt í pólitískri umræðu. Talsmaðurinn sagði einnig að Sally hafi verið beðin um að fylgja reglunum í framtíðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×