Innlent

Fyrsta verk Kolbrúnar var að loka spjallsvæði

Fyrsta verk nýkjörins forseta Bandalags íslenskra listamanna var að láta loka spjallsvæði bandalagsins sem hefur gert lítið annað en að safna auglýsingum frá erlendum klámsíðum.

Spjallsvæðið var upphaflega stofnað til að vera vettvangur skoðanaskipta milli íslenskra listamanna. Umræðan hefur þó ekki verið með líflegasta móti og í lauslegri yfirferð gat fréttamaður aðeins fundið eina innlenda færslu, frá því í júní á síðasta ári þegar tilkynnt var um stofnun síðunnar.

Á spjallsvæðinu má hins vegar finna gríðarlegt magn af klámi, þar sem erlendar klámsíður eru auglýstar sem og stinningarlyf á borð við Viagra.

Ekki liggur fyrir hvernig þetta efni endaði inná spjallsvæðinu en gera má ráð fyrir að um ruslpóst sé að ræða sem í þessu tilviki virðist vera sérstaklega hannaður til að ráðast á spjallsvæði.

Kolbrún Halldórsdóttir, sem var kjörinn forseti Bandalags íslenskra listamanna, um síðustu helgi lét það vera sitt fyrsta verk að loka spjallsvæðinu. Hún vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa hafði samband í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×