Íslenski boltinn

Given fæst ekki ódýrt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Shay Given.
Shay Given. Nordic Photos / Getty Images

Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að félagið ætli sér ekki að selja markvörðinn Shay Given á afsláttarverði.

Given hefur mátt sætta sig við að vera á bekknum í haust þar sem að Joe Hart hefur staðið í marki City í byrjun tímabilsins. Þó er búist við því að Given verði í markinu er City mætir West Brom í enska deildabikarnum annað kvöld.

Mancini hefur áður sagt að Given megi fara frá City þegar að félagaskiptaglugginn opnar í janúar. Hins vegar ætlar félagið ekki að leyfa honum að fara ódýrt.

„Shay er mikilvægur leikmaður og mun kosta einhvern mikinn pening," sagði hann við enska fjölmiðla. „Ég sagði Shay að hann gæti farið ef hann vill og ef það verður góður kostur fyrir okkur. En ef hann verður áfram er það í lagi mín vegna."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×