Íslenski boltinn

Ólafur: Ég er stoltur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks, átti skiljanlega erfitt með að gefa viðtöl strax eftir leikinn á Stjörnuvelli í dag er hans menn urðu Íslandsmeistarar.

„Við erum Íslandsmeistarar, hvort sem við skoruðum eða ekki í dag. Við héldum hreinu og mér er alveg sama um allt annað," sagði Ólafur en leiknum lauk með markalausu jafntefli.

Þar sem að ÍBV tapaði sínum leik dugði Blikum jafnteflið í dag.

„Við fengum þau úrslit sem við þurftum að fá. Þetta er niðurstaða úr heilu móti en ekki bara úr þessum leik í dag. En ég er svo sem ekki í neinu standi til að ræða þetta í viðtölum," sagði Ólafur.

„En ég er stoltur af mínum mönnum og hef verið stoltur í allt sumar. Hvernig sem leikurinn hefði farið hefði ég samt verið áfram stoltur."

Ólafur er líka stoltur af sjálfum sér en undir hans stjórn urðu Blikar bikarmeistarar í fyrra og Íslandsmeistarar í ár.

„Ég er stoltur af sjálfum mér, og líka þeim sem vinna með mér. Það eru margir sem koma að þessu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×