Íslenski boltinn

FH og Breiðablik rífast um greiðslur vegna Gylfa

Arnar Björnsson skrifar

FH vill fá rúmlega þriðjungshlut af rúmlega 100 milljóna króna greiðslu sem Breiðablik fékk þegar Gylfi Þór Sigurðsson var seldur frá Reading til þýska liðsins Hoffenheim.

Málið er komið inná borð félagaskiptanefndar Knattspyrnusambands Íslands. Þar er beðið eftir gögnum frá enska knattspyrnusambandinu.

Gylfi Þór Sigurðsson lék með FH og síðar Breiðabliki áður en hann gékk í raðir enska liðsins Reading fyrir 5 árum. Í haust seldi Reading Gylfa til þýska félagsins Hoffenheim sem borgaði 5,7 milljónir punda fyrir Íslendinginn unga eða rúman milljarð króna á gengi dagsins í dag.

5 prósent af þeirri upphæð eru uppeldisbætur sem skiptast milli Reading, Breiðabliks og FH. Engar deilur eru um þá skiptingu, þar fær Reading mest enda var Gylfi í 5 ár á mála hjá enska liðinu.

En ágreiningur er um hvernig skipta eigi 10 prósentum af sölunni, um 103 milljónum íslenskra króna.

Breiðablik gerði samning við Reading þegar Gylfi fór til Englands og í þeim samningi var ákvæði um að Kópavogsliðið fengi 10 prósent af næstu sölu Gylfa. FH-ingar hafa óskað eftir því að fá að sjá samninginn sem Breiðablik gerði við Reading.

Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH, segist vilja vita hvort hagsmunum FH-inga í þeim samningi hafi verið kastað fyrir róða, eins og hann orðaði það í samtali við Stöð 2.

Hann segir að FH vilji fá 36,2 prósent af upphæðinni sem jafngildir rúmum 37 milljónum króna. Jón Rúnar segir að mörg knattspyrnufélög semji sig frá uppeldisbótum og þess vegna vilja FH-ingar fá að sjá samninginn sem Breiðablik gerði við Reading.

Einar Kristján Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, segir að krafa FH sé byggð á misskilningi. Breiðablik hefur þegar fengið greiðslur vegna sölunnar.

Fjárhagsstaða nýkrýndra Íslandsmeistara hefur gjörbreyst á nokkrum mánuðum, Einar Kristján vildi ekki gefa upp hve skuldir félagsins voru en hann segir knattspyrnudeildina núna skuldlausa.

Næsta haust fær Breiðablik um 50 milljónir króna frá Knattspyrnusambandi Evrópu, fyrir Íslandsmeistaratitilinn og upp í ferðakostnað vegna Evrópukeppninnar á næstu leiktíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×