Innlent

Skeytin flugu á Alþingi

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir.

Forsætisráðherra skoraði á þingmann Sjálfstæðisflokks á Alþingi í morgun að greina frá styrkjamálum sínum þegar hann beindi til hennar fyrirspurn um launamál seðlabankastjóra. Þingmaðurinn kallaði svarið auma smjörklípu.

Launamál Más Guðmundssonar Seðlabankastjóra voru enn til umræðu í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun. Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, beindi fyrirspurn til forsætisráðherra og sagðist hafa traustar heimildir fyrir því að fulltrúar stjórnarflokkanna í bankaráði Seðlabankans hefðu ákveðið að hafa ákvörðun kjararáðs að engu og greiða Seðlabankastjóra út launahækkun upp á 400 þúsund á mánuði.

Hann spurði hvort ákvörðunin hefði verið tekin með hennar vilja og vitneskju og hvernig hún hyggðist bregðast við.

Jóhanna Sigurðardóttir sagðist ekki hafa haft milligöngu um tillöguna um launahækkun Más. Hún sagði upplýsingarnar frá Sigurði Kára koma sér spánskt fyrir sjónir og svaraði þingmanninum fullum hálsi og benti á að þar talaði þingmaður sem hefði ekki enn gert grein fyrir því hverjir styrktu hann í prófkjörsbaráttu. Tal um gegnsæi kæmi því úr hörðustu átt.

Sigurður svaraði því til að þarna hefði Jóhanna sett fram aumustu smjörklípu sem sést hefði í þingsal. Að því loknu ítrekaði hann spurningu sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×