Innlent

Þingmaður telur starfsreglur hafa verið brotnar

Bankasýsla ríkisins braut starfsreglur um skilvirka og gagnsæja ferla við sölu á eigum Landsbankans til Arion, félags í eigu lífeyrissjóða, að mati Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks.

Guðlaugur krafði Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra um viðbrögð í fyrirspurnatíma á Alþingi fyrir helgi. „Nú segir hvergi að brjóta megi allar reglur ef lífeyrissjóðir eiga í hlut. Hvað ætlar fjármálaráðherra að gera?" spurði Guðlaugur og kvað Bankasýsluna kosta skattgreiðendur 100 milljónir króna á ári, þótt meginhlutverk hennar væri bara að fara með hlut ríkisins í Landsbankanum.

Steingrímur benti á að Bankasýslan færi einnig með eign ríkisins í Arion og Íslandsbanka og væri að taka við eignarhlut í sparisjóðunum. Þá væri kostnaður við Bankasýsluna ekki 100 milljónir, heldur á milli 50 og 60.

Þá sagði fjármálaráðherra fullyrðingu Guðlaugs um að farið hafi verið á svig við lög og reglur rakalausa. Útskýrt hefði verið bæði af hálfu Landsbankans og Bankasýslunnar hvernig að málum hefði verið staðið, um hafi verið að ræða sameiningu eignarhalds við stækkaðan sjóð, fremur en beina eignasölu. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×