Innlent

Enginn aðgangsharðari en LÍN og skatturinn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Afgreiðsla Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Mynd/ GVA.
Afgreiðsla Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Mynd/ GVA.
Menntamálanefnd Alþingis ætlar að funda með forsvarsmönnum LÍN um innheimtuaðgerðir gagnvart skuldurum. Tilefnið er rafrænt bréf sem að einstæð tveggja barna móðir sendi á alla Alþingismenn vegna stöðu sinnar sem skuldari.

Konan, sem lætur nafns síns ekki getið í bréfi til þingmannanna, segir að undanfarin tvö ár hafi hún varið góðum tíma í að semja við banka og lánadrottna. Fram til þessa hafi hún ekki átt í vandræðum með að semja við bankana. Þeir hafi gert sitt besta fyrir sig. Hins vegar hafi tvær ríkisstofnanir reynt að gera fjárnám hjá sér. Þetta séu Lánasjóður íslenskra námsmanna og skatturinn.

„Ef alþingismönnum er í raun alvara með því að koma til móts við skuldsettar fjölskyldur í stórum vanda þá má kannski byrja á að líta til eigin krafna ríkisstofnanna sem eru að nauðbeygja fólk og krefjast nauðungarsölu," segir konan í bréfinu.

Eftir að konan sendi bréfið á þingmenn óskuðu þær Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, eftir fundi í menntamálanefnd. Skúli Helgason, formaður nefndarinnar, ætlar að finna tíma fyrir fundinn eftir kjördæmaviku Alþingis sem hefst á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×