Innlent

Vilja uppboðsmarkað með eignir bankanna

Hafsteinn G. Hauksson skrifar
Birkir J. Jónsson er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Mynd/ GVA.
Birkir J. Jónsson er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Mynd/ GVA.
Opinberum uppboðsmarkaði með eignir sem fjármálastofnanir hafa leyst til sín verður komið á fót, ef Alþingi samþykkir þingsályktunartillögu sem lögð var fram í vikunni.

Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar, en auk hans flytja aðrir þingmenn Framsóknar og tveir þingmenn Hreyfingarinnar tillöguna.

Hugmyndin er sprottin úr vinnu ungliðahreyfingar Framsóknarflokksins, en hún gerir ráð fyrir að efnahags- og viðskiptaráðuneytið hafi forgöngu um að stofnaður verði gegnsær uppboðsmarkaður í umsjón hins opinbera fyrir eignir sem bankar og fjármálastofnanir hafa leyst til sín. Íbúðarhúsnæði verður þó undanþegið.

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er einn flutningsmanna tillögunnar. „Það er ofboðslegt vantraust á bankakerfið og það er reglulega haft samband við okkur þingmenn þar sem er verið að benda okkur á að það er ekki jafnræði í aðgangi að þeim hlutum og eignum sem bankarnir hafa tekið yfir," segir Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknar og einn flutningsmanna tillögunnar.

„Við höfum líka öll séð fréttir um það að það er ekki jafnræði sem gildir um afskriftir fyrirtækja. Þetta er í rauninni ein af þeim tillögum sem við erum að leggja fram til að auka traust og gegnsæi í því hvernig er verið að meðhöndla eignir sem bankarnir hafa tekið yfir," segir Eygló.

Eygló segir að eignirnar yrðu auglýstar á þar til gerðri vefsíðu að lágmarki í ákveðinn tíma, og ef hæstu tilboðum er hafnað þurfi fjármálastofnanir að gera grein fyrir þeirri ákvörðun sinni. Hún segir banka ekki eiga að standa í almennum fyrirtækjarekstri, og því eigi að lágmarka tímann sem bankar hafa eignir í sinni umsjá. Þó þurfi að líta til þess að verðmæti eignanna myndi hrynja ef þær yrðu allar settar á markað á sama tíma. „Tíminn sem talað hefur verið um er eitt til tvö ár. Ég teldi að það væri það sem við ættum að miða við," segir Eygló.

Spurð hvort hið opinbera eigi að hlutast til um hvernig bankar sem komnir eru í eigu kröfuhafa hámarka virði sinna eigna segir Eygló: „Við setjum margskonar reglur um hin ýmsu fyrirtæki og þetta held ég að sé raunar til að styðja við það uppgjör sem þarf að fara fram hjá fjármálafyrirtækjum. Ég held að þetta myndi raunar hjálpa bönkunum að auka traust og trúverðugleika."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×