Innlent

Ísland að yfirgefa umheiminn?

Uffe Ellemann-jensen
Uffe Ellemann-jensen

Neitun forseta Íslands við að staðfesta Icesave-lögin er tilræði við fulltrúalýðræði á Íslandi og yfirlýsing um að Ísland ætli sér að yfirgefa umheiminn, segir Uffe Ellemann-Jensen, sem lengi var utanríkisráðherra Dana og formaður Venstre. Hann skrifar á vef Berlingske Tidende í gær að veruleikaskynið virðist hafa yfirgefið Íslendinga. „Þetta segi ég, sem hef lengi verið Íslandsvinur. Ímyndið ykkur þá hvernig aðrir upplifa þessar aðstæður.“

„Það er útbreidd skoðun að þetta sé allt að kenna nokkrum villingum í viðskiptalífinu; almennir Íslendingar eigi ekki að bera ábyrgð á viðskiptum þeirra. Það sjónarmið stenst ekki skoðun,“ spyr Uffe Ellemann og segir síðan: „Í siðuðu samfélagi ber fólk sameiginlega ábyrgð á aðgerðum ríkisvaldsins. Og það er íslenska ríkið sem ber ábyrgð á bankaeftirliti sem greinilega brást.“

Danska dagblaðið Jyllandsposten skrifar einnig harðorðan leiðara í garð Íslendinga í gær og segir ákvörðun forseta Íslands dæmi um flótta frá pólitískri ábyrgð. Íslendingum hefði verið nær að koma í veg fyrir lánveitingar bankanna til að kosta „fráleita herferð íslenskra draumóramanna á hendur evrópsku efnahagslífi“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×