Innlent

700 Íslendingar gætu misst námsstyrki

Verði af fyrirhuguðum breytingum á SU-styrkjum mun það koma illa við marga íslenska námsmenn í Danmörku. Fréttablaðið/Þorgils
Verði af fyrirhuguðum breytingum á SU-styrkjum mun það koma illa við marga íslenska námsmenn í Danmörku. Fréttablaðið/Þorgils
Áætlanir stjórnarflokkanna í Danmörku um að afnema námsmannastyrki, svokallaða SU-styrki, til erlendra ríkisborgara gætu haft veruleg áhrif á afkomu margra Íslendinga sem sækja þar menntun.

Að öllu jöfnu eru SU-styrkir, sem nema um 5.300 dönskum krónum á mánuði fyrir skatt, eða um 110 þúsundum íslenskra króna, ekki ætlaðir erlendum ríkis­borgurum, en undanþágur eru gerðar, til dæmis ef viðkomandi hefur búið í Danmörku í fimm ár eða unnið í landinu um að minnsta kosti tveggja ára skeið.

Samkvæmt tölum Lánasjóðs íslenskra námsmanna þáðu 722 íslenskir ríkisborgarar SU-styrk fyrstu níu mánuði ársins. Það er talsverð fjölgun frá fyrra ári þar sem 584 Íslendingar hlutu styrk.

Í fréttum danskra miðla segir að um 6.500 útlendingar þiggi SU-styrk og er kostnaður ríkisins vegna þess um 300 milljónir danskra króna, eða rúmir sex milljarðar íslenskra króna.

Þó að stjórnarflokkarnir séu sammála um að fara þetta skref, munu andstöðuflokkarnir sennilega ekki styðja væntanlegt frumvarp, því að það taki ekki á málefnum SU í heild sinni. Er því líklegt að frumvarpið muni taka nokkrum breytingum áður en yfir lýkur.

Hjördís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra námsmanna erlendis, (SÍNE) segist uggandi yfir þessum fréttum og ef af verði muni það jafnvel verða til þess að margir Íslendingar hrökklist úr námi í Danmörku.

„Það eru eflaust margir sem hafa farið út til að vinna, gagngert til að eiga svo rétt á að fá þennan styrk.“

Hjördís segir þetta vera annað dæmi um það hvernig verið sé að kreppa að íslenskum námsmönnum í Danmörku, en hún hafi nýlega frétt af einum sem var rukkaður um mjög há skólagjöld, í nám þar sem Íslendingar höfðu hingað til verið undanþegnir skólagjöldum.

„Þetta er greinilega einhver opinber stefna því að ég hafði samband við þann skóla og þau sögðu mér að þetta væri samkvæmt beinum fyrirmælum frá menntamálaráðuneytinu danska. Í kjölfarið bentum við upplýsingaskrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar á málið og þar á að kanna það og fara lengra með málið.“

Hjördís segir að SÍNE muni fylgjast með framvindunni. „Við munum fylgjast mjög vel með þessu máli. Allt norrænt samstarf og góðvilji í þessum efnum gæti verið í hættu ef það verður skorið á þetta allt í einu.“thorgils@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×