Enski boltinn

Balotelli: Aðeins Messi er betri en ég

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Þó svo Mario Balotelli hafi ekki beint verið að kveikja í enska boltanum með leik sínum er enginn skortur á sjálfstrausti leikmannsins. Hann ætlar sér að verða besti knattspyrnumaður heims og segir að aðeins Lionel Messi sé betri en hann í dag.

Balotelli var valinn besti U-21 árs leikmaður Evrópu og þau verðlaun voru greinilega ekki til þess gerð að draga úr sjálfstrausti kappans.

"Ég vil verða besti leikmaður heims. Það er nauðsynlegt að hafa metnað. Ég hef sagt það áður að mér er alveg sama hvað aðrir vilja fá frá mér því ég veit nákvæmlega sjálfur hvað ég vill," sagði Balotelli ákveðinn.

"Ég mun alltaf leggja mig allan fram því ég vil verða sá besti. Það er mitt markmið og ég er staðráðinn í að ná því markmiði. Ég er mjög ánægður að hafa fengið þessi verðlaun og sé ekki að nokkur annar hefði átt að fá þau," sagði Ítalinn af einstakri hógværð.

"Næst er að verða valinn sá besti í heiminum. Það er aðeins einn leikmaður í dag sem er aðeins betri en ég og það er Lionel Messi. Allir aðrir eru lélegri en ég."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×