Innlent

Femínstar krefjast að erótískum vef verði lokað

Úr myndskeiði af vefnum sem femínistar fara fram á að verði lokað.
Úr myndskeiði af vefnum sem femínistar fara fram á að verði lokað.
Femínistafélag Íslands krefst þess að íslenskum erótískum samskiptavef verði lokað þar sem ljóst þykir að hann ætli að stuðla að vændi íslenskra kvenna. Þá gagnrýnir félagið harðlega frétt um vefinn sem birtist á Vísi í gær.

Vefurinn Purplerabbit.is auglýsir eftir ungum íslenskum konum til þess að sitja fyrir á djörfum ljósmyndum eða myndskeiðum. Á vefnum segir meðal annars: „Kanínan er stökkpallur fyrir djarfar fyrirsætur, leikara og leikkonur sem vilja kynna sig fyrir umheiminum eða halda nafni sínu á lofti og birta sýnishorn afurða sinna, kynnast væntanlegum viðskiptavinum sínum og selja beint til þeirra og jafnvel framleiða efni fyrir valda (viðskipta)vini sína eftir pöntun."

„Hér er klárlega um vændistengda starfsemi að ræða þrátt fyrir yfirlýsingu vefsins um annað," segir í yfirlýsingu frá Femínistafélaginu.

Félagið bendir á að í löndum sem hafa liðið efnahagslegt afhroð hafi neyð kvenna leitt til þess að vændi og önnur vændistengd starfsemi hafi aukist til muna.

„Við teljum ljóst að með fréttinni eða öllu heldur auglýsingunni fyrir vefinn ætli visir.is sér að stuðla að vændi íslenskra kvenna."

Jafnframt fordæmis Femínistafélagið að samskiptavefurinn fái að starfa óáreittur og krefst þess að yfirvöld loki vefnum og stöðvi starfsemina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×